6:1 Hvert er unnusti þinn genginn, þú hin fegursta meðal kvenna? Hvert hefir unnusti þinn farið, að vér megum leita hans með þér?
6:2 Unnusti minn gekk ofan í garð sinn, að balsambeðunum, til þess að skemmta sér í görðunum og til að tína liljur.
6:3 Ég heyri unnusta mínum, og unnusti minn heyrir mér, hann sem skemmtir sér meðal liljanna.
6:4 Fögur ertu, vina mín, eins og Tirsa, yndisleg eins og Jerúsalem, ægileg sem herflokkar.
6:5 Snú frá mér augum þínum, því að þau hræða mig. Hár þitt er eins og geitahjörð, sem rennur niður Gíleaðfjall.
6:6 Tennur þínar eru eins og hópur af ám, sem koma af sundi, sem allar eru tvílembdar og engin lamblaus meðal þeirra.
6:7 Vangi þinn er eins og kinn á granatepli út um skýluraufina.
6:8 Sextíu eru drottningarnar og áttatíu hjákonurnar og óteljandi ungfrúr.
6:9 En ein er dúfan mín, ljúfan mín, einkabarn móður sinnar, augasteinn þeirrar er ól hana. Meyjarnar sáu hana og sögðu hana sæla, og drottningar og hjákonur víðfrægðu hana.
6:10 Hver er sú sem horfir niður eins og morgunroðinn, fögur sem máninn, hrein sem sólin, ægileg sem herflokkar?
6:11 Ég hafði gengið ofan í hnotgarðinn til þess að skoða gróðurinn í dalnum, til þess að skoða, hvort vínviðurinn væri farinn að bruma, hvort granateplatrén væru farin að blómgast.
6:12 Áður en ég vissi af, hafði löngun mín leitt mig að vögnum manna höfðingja nokkurs.
6:13 Snú þér við, snú þér við, Súlamít, snú þér við, snú þér við, svo að vér fáum séð þig! Hvað viljið þér sjá á Súlamít? Er það dansinn í tvíflokknum?