1:1 Orð Drottins, sem kom til Sefanía Kúsísonar, Gedaljasonar, Amaríasonar, Hiskíasonar, á dögum Jósía Amónssonar Júdakonungs.
1:2 Ég vil gjörsópa öllu burt af jörðunni _ segir Drottinn.
1:3 Ég vil sópa burt mönnum og skepnum, ég vil sópa burt fuglum himinsins og fiskum sjávarins, hneykslunum ásamt hinum óguðlegu, og ég vil afmá mennina af jörðunni _ segir Drottinn.
1:4 Ég mun útrétta hönd mína gegn Júda og gegn öllum Jerúsalembúum og afmá nafn Baals af þessum stað, nafn hofgoðanna ásamt prestunum,
1:5 svo og þá er á þökunum falla fram fyrir her himinsins, og þá sem falla fram fyrir Drottni, en sverja um leið við Milkóm,
1:6 svo og þá sem gjörst hafa Drottni fráhverfir og eigi leita Drottins né spyrja eftir honum.
1:7 Verið hljóðir fyrir Drottni Guði! Því að nálægur er dagur Drottins. Já, Drottinn hefir efnt til fórnar, hann hefir þegar vígt gesti sína.
1:8 Á fórnardegi Drottins mun ég vitja höfðingjanna og konungssonanna, svo og allra þeirra, er klæðast útlenskum klæðnaði.
1:9 Þann dag vitja ég allra, sem stökkva yfir þröskuldinn, þeirra er fylla hús Drottins síns með ofbeldi og svikum.
1:10 Á þeim degi _ segir Drottinn _ mun heyrast neyðaróp frá Fiskhliðinu, kveinan úr öðru borgarhverfi og ógurlegt harmakvein frá hæðunum.
1:11 Kveinið, þér sem búið í Mortélinu, því að allur kaupmannalýðurinn er eyddur, afmáðir allir þeir, er silfur vega.
1:12 Í þann tíma mun ég rannsaka Jerúsalem með skriðljósum og vitja þeirra manna, sem liggja á dreggjum sínum, þeirra er segja í hjarta sínu: ,,Drottinn gjörir hvorki gott né illt.``
1:13 Þá munu fjármunir þeirra verða að herfangi og hús þeirra að auðn. Þeir munu byggja hús, en ekki búa í þeim, planta víngarða, en ekki drekka vínið, sem úr þeim kemur.
1:14 Hinn mikli dagur Drottins er nálægur, hann er nálægur og hraðar sér mjög. Heyr! Dagur Drottins! Beisklega kveinar þá kappinn.
1:15 Sá dagur er dagur reiði, dagur neyðar og þrengingar, dagur eyðingar og umturnunar, dagur myrkurs og niðdimmu, dagur skýþykknis og skýsorta,
1:16 dagur lúðra og herblásturs _ gegn víggirtu borgunum og háu múrtindunum.
1:17 Þá mun ég hræða mennina, svo að þeir ráfi eins og blindir menn, af því að þeir hafa syndgað gegn Drottni, og blóði þeirra skal úthellt verða sem dufti og innyflum þeirra sem saur.
1:18 Hvorki silfur þeirra né gull fær frelsað þá á reiðidegi Drottins, heldur skal allt landið eyðast fyrir eldi vandlætingar hans. Því að tortíming, já bráða eyðing býr hann öllum þeim, sem á jörðunni búa.